Platini stefnir á EM í sumar

Michel Platini umkringdur af fréttamönnum í Zürich.
Michel Platini umkringdur af fréttamönnum í Zürich. AFP

Michel Platini, forseti Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, kveðst vonast til þess að sér takist að hreinsa nafn sitt og losna úr átta ára banninu frá afskiptum af fótbolta áður en Evrópukeppnin í knattspyrnu hefst í heimalandi hans, Frakklandi, í júnímánuði.

Siðanefnd FIFA setti Platini í banni í desember vegna greiðslu sem hann fékk frá FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandinu, árið 2011 og hefur verið skýrð sem greiðsla vegna vinnu fyrir sambandið heilum áratug áður.

Platini fékk áheyrn hjá áfrýjunardómstóli FIFA í Zürich í dag og hann ræddi við fréttamenn fyrir utan höfuðstöðvar sambandsins eftir átta klukkutíma fundahöld.

„Þetta var mjög góður fundur, afar vel stjórnað af fólki sem hefur komið fram af mikilli hreinskilni. Ég er afar ánægður með hvernig þetta gekk fyrir sig. Ég vonast til þess að mega byrja að vinna aftur eins fljótt og hægt er, og geta farið á skrifstofuna um leið og áfrýjunardómstóllinn heimilar það, og farið að undirbúa Evrópukeppnina. Þar er í mörg horn að líta," sagði Platini, sem varð að draga til baka framboð sitt í kjöri til forsetaembættis FIFA vegna bannsins.

Sepp Blatter, forseti FIFA, fékk jafnlangt bann og hann kemur fyrir áfrýjunardómstólinn á morgun. Báðir hafa þeir neitað öllum ásökunum um að hafa aðhafst eitthvað ólöglegt.

Platini sagði ennfremur að vitnisburður frá Jacques Lambert, yfirmanni skipulagsnefndar EM 2016, og Angel Villar, stjórnarmanni FIFA, hefði verið mjög jákvæður.

„Ég veit ekki hvort það dugir en þeirra vitnisburður er afar mikilvægur. Það er alveg ljóst að ég hefði aldrei óskað eftir þessari greiðslu ef ég hefði verið búinn að fá borgað. Ég treysti Blatter til að greiða mér á sínum tíma, en hann gerði það ekki, svo ég varð að ganga eftir henni síðar en þá voru liðin níu ár. Þetta var ekkert mál af minni hálfu því ég treysti honum," sagði Platini um greiðsluna umdeildu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka