Sepp Blatter, fyrrverandi forseti Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, hefur áfrýjað sex ára banni frá afskiptum af knattspyrnu til Alþjóða íþróttadómstólsins í Sviss.
Blatter var upphaflega dæmdur í átta ára bann í desember sem var síðan stytt í sex ár í síðasta mánuði. Siðanefnd FIFA úrskurðaði bæði hann og Michael Platini, fyrrverandi forseta Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, í bann.
Til skoðunar var greiðsla sem Platini fékk frá FIFA árið 2011 og var skýrð sem þóknun fyrir störf sem hann hafi unnið fyrir sambandið í kringum aldamótin.
Í yfirlýsingu frá siðanefndinni frá því í desember segir að Platini hafi ekki sýnt af sér trúverðugleika og heiðarleika og sýnt kæruleysi gagnvart sinni mikilvægu stöðu. Útskýringar Blatters á munnlegu samkomulagi um greiðsluna hafi ekki verið sannfærandi og verið hafnað af nefndinni.
Platini var sektaður um 73 þúsund evrur (10,4 milljónir króna) og Blatter um 47 þúsund evrur (rúmar 6,6 milljónir króna).