Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, hefur opinberað launatölur Sepp Blatters á síðasta ári. Blatter var til rannsóknar vegna spillingarmála á síðasta ári og á endanum var hann dæmdur í bann frá afskiptum af knattspyrnu.
Laun Blatters voru 3,32 milljónir evra (tæpar 470 milljónir íslenskra króna). Í þau 18 ár sem Blatter var forseti FIFA þá neitaði hann alltaf að gefa upp laun sín en vegna nýrra reglna FIFA eru þau nú gefin upp.
Fyrrverandi framkvæmdastjóri FIFA, Jerome Valcke, var með 1,93 milljónir evra í laun á síðasta ári (rúmar 270 milljónir íslenskra króna). Valcke var rekinn frá FIFA á síðasta ári og dæmdur í 12 ára knattspyrnubann.
Til samanburðar fékk Thomas Bach, forseti Alþjóða Ólympíunefndarinnar, greiddar 225.000 evrur í fyrra, jafnvirði um 32 milljóna króna, fyrir útlögðum kostnaði, dagpeningum og öðrum kostnaði sem hann hafði vegna starfa sinn. Starf forseta Alþjóða ólympíunefndarinnar er strangt til tekið ólaunað en heimilt er að greiða forseta útlagðan kostnað við ferðir s.s. dagpeninga og önnur hlunnindi.
Blatter hefur áfrýjað banni sínu frá afskiptum af knattspyrnu.