Skipuleggjendur HM í knattspyrnu 2022 í Katar eru sagðir velta alvarlega fyrir sér þeim möguleika að bjóða gestum sem koma til landsins til að fylgjast með mótinu að sofa í flatsængum í Bedúínatjöldum úti í eyðimörkinn rétt utan höfuðborgarinnar, Doha.
Fullvíst er talið að ekki takist að koma til móts við kröfur Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, um að 60.000 hótelherbergi verði tilbúin í landinu þegar HM hefst. Vegna lækkunar olíuverð síðustu misseri hafa Katarbúar hægt á framkvæmdum vegna mótsins, öðrum en þeim sem snúa að byggingu knattspyrnuvalla. Útlit er fyrir að 46.000 hótelherbergi verði tilbúin þegar mótið hefst en upphaflegar áætlanir Katarbúa gerðu ráð fyrir að hafa 55.000 herbergi tilbúin í nóvember 2022 þegar mótið hefst.
Nú leggja menn höfuðið í bleyti hvað gera skal og ein þeirra hugmynda er að tjalda í eyðimörkinni og bjóða gestum að sofa í þeim meðan mótið fer fram. Óvíst er þó að ekta útihátíðarstemning verði í tjaldbúðunum þar sem ekki stendur til að leyfa fólki að drekka áfengi í tjaldbúskapnum. Ströng lög gilda um sölu áfengis í Katar. Sala áfengið og neysla er bönnuð á almannafæri og aðeins heimiluð á nokkrum útvöldum lúxushótelum með ströngum skilyrðum. Aðeins ein áfengisverslun er í Katar sem erlendir ríkisborgarar hafa ekki aðgang að nema að þeir vinni í landinu.
Hinsvegar er eflaust hægt að kveikja varðeld og slá á gítarstrengi í eyðimörkinni.
Nú þegar stendur ferðafólki sem kemur til Katar til boða ferðir út í eyðimörkina þar sem m.a. er gist næturlangt í Bedúínatjöldum.