Geir Þorsteinsson formaður Knattspyrnusambands Íslands sækist eftir kjöri í stjórn Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, á þingi UEFA í Helsinki í apríl á næsta ári.
„Í október hittust knattspyrnusamböndin á Norðurlöndunum þar sem rætt var um framboðsmál í UEFA og FIFA og niðurstaðan á þeim fundi var sú að ég yrði fulltrúi Norðurlandanna í kjöri inn í stjórn FIFA í apríl. Í millitíðinni fór þetta til stjórna allra sambandanna þar sem þetta var samþykkt og þau undirrituðu stuðningsyfirlýsingu við mig. Ég er þar með formlega orðinn frambjóðandi Norðurlandanna í stjórn FIFA. Þetta er gríðarlegur heiður fyrir mig og íslenska knattspyrnu að ég skuli vera fulltrúi Norðurlandanna í þessu kjöri,“ sagði Geir í samtali við mbl.is.
Framboðsfresturinn rann út 5. desember síðastliðinn og eru fimm í framboði um fjögur laus sæti. Þeir sem sækjast eftir kjöri auk Geirs eru formenn knattspyrnusambanda Rússlands, Ungverjalands, Svartfjallalands og Kýpur.
Geir hefur gegnt embætti formanns KSÍ frá árinu 2007 og hann gefur kost á sér áfram í starfið á ársþingi KSÍ sem haldið verður í Vestmannaeyjum í febrúar. Ljóst er nú að Geir fær mótframboð en Guðni Bergsson fyrrum fyrirliði íslenska landsliðsins gaf það út fyrr í dag að hann ætli að bjóða sig fram.
„Ég tek framboði Guðna fagnandi og það er bara jákvætt að málefni knattspyrnunnar séu framarlega,“ sagði Geir þegar hann var spurður út í ákvörðun Guðna að gefa kost á sér.
„Þessi niðurstaða að ég sé fulltrúi Norðurlandanna til kjörs í FIFA hefur styrkt mig í að halda áfram störfum sem formaður KSÍ og forsendan fyrir því að taka sæti í stjórn FIFA er að ég haldi áfram mínu starfi sem formaður Knattspyrnusambandsins,“ sagði Geir.