„Það kom boð frá Taílandi sem ég var áhugasamur yfir og ég bara stökk á þetta tilboð frá Buriram United,“ sagði Sölvi Geir Ottesen við mbl.is í dag en hann var þá að fara á sína aðra æfingu með liðinu eftir að hafa gengið í raðir félagsins í gær.
Sölvi Geir gerði 11 mánaða samning við taílenska liðið og spilar sinn fyrsta leik með liðinu á sunnudaginn en deildarkeppnin hefst þar í landi um næstu helgi.
„Ég kom til borgarinnar í gær sem heitir Buriram og tók mína fyrstu æfingu með liðinu. Svo er ég bara hægt og bítandi að koma mér inn í hlutina. Fyrstu kynnin eru bara mjög góð. Ég er búinn að ræða við serbneska þjálfarateymið og hitta liðsfélagana og aðstæðurnar hjá félaginu eru bara virkilega góðar. Svo á ég bara eftir að skoða borgina betur og koma mér fyrir í henni,“ sagði Sölvi Geir.
Sölvi verður fyrsti íslenski knattspyrnumaðurinn sem spilar í Taílandi en óhætt er að segja að hann hafi verið á óhefðbundnum slóðum á undanförnum árum. Miðvörðurinn stóri og sterki lék með Ural í Rússlandi tvö tímabil. Þaðan lá svo leiðin til Kína þar sem hann lék fyrst með liði Jiangsu Sainty í efstu deildinni og á síðustu leiktíð spilaði hann með Wuhan Zall í B-deildinni þar sem hann bar fyrirliðabandið.
„Já það má segja að ég sé að fara óhefðbundnar leiðir. Ég er óhræddur við að prófa eitthvað nýtt en svo hefur þetta líka komið svolítið upp í hendurnar á mér eins og í Rússlandi og í Kína. Mér finnst þetta bara spennandi og ég lít á þetta sem mikið ævintýri. Ég hafði mjög gaman að því að vera í Rússlandi og í Kína og ég held að það sama verði uppi á teningnum hér í Taílandi.
„Ég hef svo sem ekki alveg kynnt mér hvernig „standardinn“ er á taílenskum fótbolta. Ég veit þó að Buriram er gott lið á taílenskan mælikvarða og hefur verið með betri liðum í Taílandi. Þeir segja það sjálfir að það sé uppgangur í fótboltanum hérna og hann sé kominn á hærra stig en hann var fyrir nokkrum árum. Mitt hlutverk hjá liðinu verður að stjórna vörninni og verið í ákveðnu leiðtogahlutverki í varnarleiknum,“ segir Sölvi Geir en uppistaðan í liði Buriram eru leikmenn frá Taílandi. Hvert lið má vera með fimm erlenda leikmenn og einn þeirra verður að vera frá öðru Asíuríki. Auk Sölva er Buriram með þrjá Brasilíumenn og einn frá Suður-Kóreu. Einn Brasilíumannanna, framherjinn Jajá Coelho, lék með Lokeren í Belgíu á síðasta tímabili.
„Við ákváðum að semja bara til eins árs og eftir það munum sjáum við til með framhaldið. Það er stutt í fyrsta leikinn og það verður forvitnileg að sjá hvernig manni tekst að fóta sig í þeim leik. Ég hef ekki spilað fótbolta síðan í október. Ég ristarbrotnaði þegar mánuður var eftir af kínversku deildinni. Ég ákvað að koma heim til Íslands og fékk leyfi til þess. Þar fór ég meðferð, æfði hjá einkaþjálfara og æfði síðan með FH-ingum. Ég náði að halda mér vel við á Íslandi og það mun væntanlega borga sig á sunnudaginn þegar við spilum fyrsta leikinn. Ef ég hefði bara verið í rólegheitum á Íslandi þá hefði ég ekki verið í neinu standi til þess að spila á sunnudaginn,“ sagði Sölvi.
Spurður hvort hann hafi gert góðan fjárhagslegan samning sagði Sölvi;
„Það má bara segja að ég sé sáttur með hann. Er það ekki aðalatriðið að maður sé sáttur?, sagði Sölvi og hló.
Sölvi Geir, sem er 32 ára gamall, á 28 leiki að baki með íslenska A-landsliðinu en hann lék síðast með landsliðinu vináttuleik gegn Finnum í janúar á síðasta ári. Spurður hvort landsliðsferill hans sé enn á lífi sagði Sölvi;
„Eins og ég hef áður sagt þá gef ég alltaf kost á mér í landsliðið en svo er það bara undir landsliðsþjálfaranum komið hvort hann velji mig eða ekki. Ég hef nú fengið frekar skýr skilaboð að undanförnu með mína landsliðsveru. En ég held áfram að spila fótbolta og gera mitt besta og ef landsliðsþjálfarinn fylgist með mér þá er honum velkomið að bjóða mér í landsliðshópinn. Ef Heimir hefur áhuga á að kíkja á mig í Taílandi þá er honum velkomið að gera það.“
Fjallað er um vistaskipti Sölva í Morgunblaðinu í dag: Sölvi í sigursælu félagi.