Hólmar Örn Eyjólfsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, kveðst lítið vita um stöðu mála hjá félagi sínu, Maccabi Haifa í Ísrael, eftir að þjálfara liðsins, Hollendingnum René Meulensteen, var sagt upp störfum í morgun.
„Við erum þjálfaralausir í augnablikinu og ég veit ósköp lítið um stöðu mála. Ég fékk bara að vita í morgun að þjálfarinn væri farinn,“ sagði Hólmar við mbl.is.
Meulensteen var sagt upp í kjölfarið á ósigri gegn nágrannaliðinu Hapoel Haifa, 0:3, um helgina en Maccabi Haifa hefur aðeins unnið einn af síðustu átta leikjum sínum í deildinni og er sigið niður í sjöunda sæti þegar fjórar umferðir eru eftir. Sex efstu liðin halda síðan áfram í keppni um meistaratitilinn en hin um að halda sér í deildinni.
Hólmar kom til Haifa um áramótin þegar félagið keypti hann af norsku meisturunum Rosenborg og hefur spilað síðustu fimm leikina í vörn liðsins.
„Þetta hefur ekki gengið nógu vel hjá liðinu. Maccabi Haifa er vanalega í toppbaráttu og svo spilar tapið um helgina örugglega talsvert inn í þessa ákvörðun,“ sagði Hólmar sem kveðst annars kunna vel við sig eftir fyrstu vikurnar í ísraelsku hafnarborginni.
„Já, þetta hefur gengið ágætlega fyrir utan úrslitin í leikjunum. Þegar ég kom hingað hafði ég verið í sex vikna fríi og æfði bara í fimm daga áður en ég spilaði minn fyrsta leik, í byrjunarliði, og hef spilað alla leiki síðan. Ég finn fyrir því að ég er ekki í toppstandi en er hægt og rólega að koma til,“ sagði Hólmar.
Hann kvaðst vera bjartsýnn á framhaldið þrátt fyrir erfitt gengi liðsins undanfarnar vikur. „Við höfum alveg getuna til þess að komast í úrslitakeppnina. Takmarkið núna er að ná sjötta sætinu, vera í efri hlutanum í úrslitakeppninni og byggja þar góðan grunn fyrir næsta tímabil. Við erum með marga nýja leikmenn í liðinu og nú skiptir mestu máli að við lærum vel hver inn á annan,“ sagði Hólmar Örn Eyjólfsson.