Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari kínverska knattspyrnuliðsins Jiangsu Suning og fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands, hefur freistað þess að fá til sín íslenskar landsliðskonur, m.a. Dagnýju Brynjarsdóttur frá Portland Thorns og Hallberu Guðnýju Gísladóttur frá Djurgården.
Dagný og Hallbera staðfestu þetta báðar við Morgunblaðið í gær og sögðu að Sigurður hefði haft samband við þær. Þær tóku hins vegar báðar íslenska landsliðið og Evrópukeppnina í Hollandi fram yfir mögulega Kínaferð, en samningur við Jiangsu hefði truflað verulega þátttöku þeirra í undirbúningi landsliðsins fyrir EM.
Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari sagði við 433.is í gær að hann hefði gert leikmönnum landsliðsins grein fyrir því að samningar við kínversk félög myndu hafa áhrif á stöðu þeirra gagnvart landsliðinu.
Hallbera, sem gekk til liðs við Djurgården í Svíþjóð frá Breiðabliki í vetur, sagði að tilboðið frá Jiangsu hefði verið gott.
„Þetta er besta samningstilboð, peningalega, sem ég hef nokkurn tíma fengið þannig að ég hefði ef til vill hugsað málið aðeins lengur ef ekki væri svona stórt ár hjá landsliðinu. Þetta hentaði ekki á EM-ári. Ég afþakkaði því eftir smá umhugsunarfrest þannig að það voru ekki hafnar neinar beinar samningaviðræður að öðru leyti,“ sagði Hallbera, sem útilokar ekki að skoða tilboð frá Kína ef það kæmi síðar.
„Ég segi ekki að ég bíði spennt eftir því að komast til Kína en maður á aldrei að segja aldrei,“ sagði landsliðsbakvörðurinn.
Sjá viðtöl við Hallberu og Dagnýju í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag