Óánægja með stöðu liðsins

Hólmar Örn Eyjólfsson með treyju Maccabi Haifa.
Hólmar Örn Eyjólfsson með treyju Maccabi Haifa. Ljósmynd/Maccabi Haifa/Twitter

Hólmar Örn Eyjólfsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, á ekki von á að vera lengi frá vegna nárameiðsla sem hann varð fyrir og urðu til þess að hann missti af leik Maccabi Haifa gegn Beitar Jerúsalem í úrslitakeppninni um ísraelska meistaratitilinn um helgina.

„Ég meiddist í leiknum þar á undan, gegn Hapoel Beer Sheva, og varð að fara af velli. Það er óvíst hvort ég nái næsta leik á sunnudaginn kemur, ég stefni að því, en annars ætti ég að geta spilað tvo síðustu leiki liðsins á tímabilinu,“ sagði Hólmar við mbl.is.

Haifa er í sjötta og síðasta sæti af þeim sex liðum sem komust í úrslitakeppnina að hefðbundinni deildakeppni lokinni. Liðið er níu stigum frá þriðja sætinu þegar þremur umferðum er ólokið og möguleikinn á Evrópusæti er því nánast úr sögunni.

„Það er mikil óánægja hérna með þessa stöðu liðsins því það ætlaði sér lengra. En menn hérna eru fyrst og fremst að horfa til næsta tímabils og eflaust verða talsverðar breytingar á leikmannahópnum og starfsliðinu eftir tímabilið,“ sagði Hólmar en Maccabi Haifa keypti hann af Rosenborg í Noregi um áramótin og hann hefur spilað nær alla leiki liðsins síðan í miðri vörninni, eða fjórtán af sextán, og alla í byrjunarliðinu.

„Þetta er mjög góður staður til að vera á og ég gæti alveg hugsað mér að vera í einhvern tíma hér. En hlutirnir breytast fljótt, sérstaklega hérna, þannig að maður tekur bara hvern dag fyrir sig og sér svo til hvað gerist. Ég er með samning næstu fjögur árin svo það er eitthvað eftir af honum!“ sagði Hólmar Örn Eyjólfsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert