Landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu, Heimir Hallgrímsson, sat fyrir svörum fréttamanna ásamt Aroni Einari Gunnarssyni í Laugardalnum í dag. Það er erfitt verkefni fram undan, leikur gegn Króatíu í undankeppni HM í Rússlandi á næsta ári. Heimir viðurkennir að sóknarleikur Íslands hafi ekki verið nógu góður í síðasta leik gegn Króatíu og það þurfi að laga.
„Við þurfum fyrst að ná af þeim boltanum, það er alltaf fyrsta verkefnið á móti liðum eins og Króatíu sem er með svona sterka miðju. Við erum meðvitaðir um það að sóknarleikurinn úti í Króatíu var fátæklegur. Við erum búnir að fara yfir ákveðnar leiðir um hvernig við ætlum að vera sterkari í sókninni. Vonandi náum við að koma þeim á óvart.“
Heimir var spurður út í stuðningsmenn og Laugardalsvöllinn og er hann ánægður með þá þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár.
„Það er gaman að upplifa þessa breytingu. Það hefur gerst smátt og smátt að áhuginn sé að aukast. Það er alltaf meiri stuðningur á pöllunum og fleiri að koma í bláu og syngja þjóðsönginn. Þegar maður heldur að stuðningsmennirnir séu að toppa sig gerist eitthvað enn skemmtilegra í næsta leik. Það er gaman að hafa verið hluti af þessari þróun og vonandi heldur þetta áfram og vonandi stækkar völlurinn og verður enn meiri stemning í kringum landsleiki,“ sagði Heimir að lokum.