Knattspyrnumaðurinn Sölvi Geir Ottesen segir óvíst hvað taki við á ferlinum, en eins og fram kom í Morgunblaðinu á dögunum hefur hann gert starfslokasamning við taílenska félagið Buriram United. Félagið bauð honum að gera starfslokasamninginn eftir að það fékk evrópskan leikmann til baka úr láni, en Sölvi gerði samning við Buriram fyrir tímabilið og lék 12 leiki með því á fyrri hluta tímabilsins.
Sölvi kom til landsins í gærkvöld og náði Morgunblaðið tali af honum í Helsinki, þar sem hann beið þess að komast heim. Hann útilokar ekki að spila í Pepsi-deildinni þegar opnað verður fyrir félagaskipti 15. júlí.
„Það er óljóst hvað tekur við hjá mér núna. Ég er bara að fara yfir stöðuna. Einn af möguleikunum sem koma til greina er að spila á Íslandi í sumar. Nokkur lið hafa haft samband við mig en ég mun skoða málin betur núna þegar ég er kominn heim,“ sagði Sölvi Geir við Morgunblaðið.
Íslandsmeistarar FH eru eitt þeirra liða sem Sölvi hefur verið orðaður við, en hann æfði með Hafnarfjarðarliðinu í vetur.
Sjá viðtalið í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.