Landsliðsmaðurinn Aron Sigurðarson hefur biðlað til forráðamanna norska knattspyrnufélagsins Tromsø um að þeir nái samkomulagi við Twente um félagaskipti hans.
Twente hefur gefist upp á því að fá Aron í sínar raðir en það segir að norska félagið krefjist of hárrar upphæðar fyrir leikmanninn. Aron átti fund með íþróttastjóra Tromsø.
„Ég átti fínan fund með honum. Hann tjáði mér hvað félagið væri að hugsa og ég sagði hvað ég væri að hugsa. Þeir ætla að ræða aftur við Twente og sjá hvort það sé hægt að finna einhvern flöt á þessu,“ segir Aron í viðtali við vefinn itromso.no en skilaboð hans til Tromsø eru þau að hann vilji komast í burtu frá liðinu.
„Ég hef aldrei farið leynt með það að ég vil reyna fyrir mér í stærri deild því það mun auka möguleika mína á að komast í landsliðið. Það hefur alltaf verið draumur minn að spila í Hollandi,“ segir Aron.