Eiður Smári er hættur

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. mbl.is/Golli

Eiður Smári Guðjohnsen hefur lagt knattspyrnuskóna á hilluna eftir langan og farsælan feril. Eiður Smári staðfesti í þættinum 1 á 1 með Guðmundi Benediktssyni í kvöld

Eiður Smári er 38 ára gamall og spilaði sína fyrstu leiki í meistaraflokki með Val árið 1994. Hann fór til PSV í Hollandi það ár, en á tíma sínum þar varð hann fyrir því óláni að fótbrotna. Hann var lánaður til KR um tíma árið 1998 áður en ferillinn fór á flug.

Eiður Smári spilaði með Bolton á Englandi til aldamóta, en gekk í raðir Chelsea árið 2000. Hjá Chelsea var hann í sjö ár og varð tvívegis enskur meistari með liðinu, auk þess sem hann vann Samfélagsskjöldinn einu sinni og enska deildabikarinn einu sinni.

Árið 2006 var Eiður Smári seldur til Barcelona, en þar vann hann spænska meistaratitilinn einu sinni, spænsku bikarkeppnina einus inni og Meistaradeild Evrópu, svo eitthvað sé nefnt. Hann var hjá Barcelona til ársins 2009.

Frá þeim tíma hefur Eiður Smári verið á mála hjá Mónakó, Tottenham, Stoke, Fulham, AEK Aþenu, Cercle Brugge og Club Brugge, Bolton á ný og Shijazhuang Ever Bright í Kína. Eiður Smári var síðast á mála hjá Pune City á Indlandi, en spilaði þó aldrei með liðinu vegna meiðsla. Hann var þar áður hjá Molde í Noregi.

Eiður Smári er markahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi, en hann skoraði 26 mörk í 88 landsleikjum. Síðasti landsleikur hans var 5:2-tapið fyrir Frakklandi í átta liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu í júlí 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert