Rúnar Alex fær mikið hrós

Rúnar Alex Rúnarsson.
Rúnar Alex Rúnarsson. Ljósmynd/Twitter

Kasper Hjulmand þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins Nordsjælland hrósar markverðinum Rúnari Alex Rúnarssyni í hástert og segir að framtíð hans sé afar björt.

„Við erum virkilega ánægðir með Alex. Hann hefur verið mjög góður og eins og við spilum fellur hann vel inn í liðið. Hann hefur tekið ótrúlegum framförum og hann er klassa markvörður sem hefur náttúrulega hæfileika,“ segir Hjulmand.

Rúnar Alex, sem er 22 ára gamall, gekk í raðir Nordsælland frá KR árið 2014. Hann hefur spilað 34 leiki með Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni en liðið trónir á toppi deildarinnar. Nordsjælland er með 20 stig eftir 10 umferðir, tveimur stigum meira en meistararnir í FC Köbenhavn og Bröndby.

Rúnar varði nokkrum sinnum meistaralaga í 2:2 jafntefli gegn SönderjyskE á föstudagskvöldið en var óheppinn að skora sjálfsmark. Skot leikmanns SönderjyskE fór í stöngina og þaðan fór boltinn í bakið á Rúnari og í netið.

Rúnar Alex hefur leikið með öllum yngri landsliðunum og hefur nokkrum sinnum verið í A-landsliðshópnum en bíður eftir að fá tækifæri með landsliðinu.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert