„Þetta kom mér gríðarlega á óvart og ég kom varla við gólfið þegar ég var kölluð upp. Ég var viss um að þjálfari meistaraliðsins Linköping yrði fyrir valinu,“ sagði knattspyrnuþjálfarinn Elísabet Gunnarsdóttir við Morgunblaðið í gær.
Þá var hún á leiðinni heim til Kristianstad frá Stokkhólmi eftir að hafa verið útnefnd þjálfari ársins í kvennaflokki í Svíþjóð á árinu 2017 á Fotbollsgalan 2017, uppskeruhátíð sænsku knattspyrnunnar sem haldin var í Globen, íþrótta- og sýningarhöllinni risavöxnu, í fyrrakvöld og sýnd beint í sænska sjónvarpinu.
Undir stjórn Elísabetar hafnaði Kristianstad í 5. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar og tók mikið stökk eftir að hafa forðað sér naumlega frá falli haustið 2016 og verið hársbreidd frá gjaldþroti. Hún sagði í viðtali við Morgunblaðið í janúar 2017 að unnið væri að því að koma félaginu í fjárhagslegt jafnvægi og markmiðið væri að koma liðinu upp í miðja deild.
„Já, það má segja að þetta hafi allt gengið samkvæmt áætlun, bæði fjárhagurinn og árangurinn. Veltan hjá liðinu 2016 var 4,8 milljónir sænskra króna, sú minnsta hjá öllum liðum deildarinnar. Hún var hækkuð í 6,4 milljónir á þessu ári, við erum enn neðarlega miðað við hin liðin en þetta var samt talsvert stökk. Það var nauðsynlegt að lyfta liðinu upp í miðja deild, til að halda áhuganum hjá fólki og fyrirtækjum í Kristianstad. Við lofuðum því og það er gott að geta staðið við það,“ sagði Elísabet.
Ítarlegt viðtal við Elísabetu má finna í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.