Ingibjörg gengin í raðir Djurgården

Ingibjörg Sigurðardóttir.
Ingibjörg Sigurðardóttir. mbl.is/Golli

Ingibjörg Sigurðardóttir, landsliðskona í knattspyrnu, hefur yfirgefið Breiðablik og er gengin í raðir sænska úrvalsdeildarfélagsins Djurgården. Þar verður hún samherji landsliðsmarkvarðarins Guðbjargar Gunnarsdóttur.

Ingibjörg er tvítug og vakti mikla athygli í sumar þar sem hún fór með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í Hollandi. Hún hefur verið eftirsótt og meðal annars farið á reynslu hjá norska liðinu Vålerenga, auk þess sem hún hafnaði tilboði Fiorentina frá Ítalíu.

Samningur Ingibjargar er til tveggja ára, en Djurgården hafnaði í sjötta sæti af 12 liðum í sænsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Ingibjörg hefur leikið með Breiðabliki síðustu sex ár en spilaði sína fyrstu leiki í efstu deild með uppeldisfélagi sínu Grindavík sumarið 2011, þá aðeins 13 ára gömul.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert