Cristiano Ronaldo æfði einn en ekki með liðsfélögum sínum í Real Madrid í gær fyrir El Clásico-leikinn við Barcelona sem fram fer í hádeginu á morgun. Barcelona er á toppi spænsku 1. deildarinnar í knattspyrnu með gott forskot á Real.
Ronaldo er að jafna sig af kálfameiðslum en hann meiddist í úrslitaleiknum á HM félagsliða í Abu Dhabi um síðustu helgi. Hann æfði einn í gær en gat æft með og án bolta, eftir að hafa ekki reimað á sig takkaskóna dagana þar á undan.
Spænska blaðið AS segir að þótt farið sé varlega með Ronaldo megi fastlega gera ráð fyrir því að hann verði í byrjunarliði Real á morgun. Real þarf sárlega á sigri að halda enda er liðið 11 stigum á eftir Barcelona.