Rúrik Gíslason, landsliðsmaður í knattspyrnu, gekk í dag til liðs við þýska félagið Sandhausen en þangað kemur hann frá Nürnberg og samdi við félagið til sex mánaða, eða til loka yfirstandandi keppnistímabils.
Sandhausen er í 5. sæti þýsku B-deildarinnar, tveimur sætum á eftir Nürnberg, en liðin eru bæði í baráttunni um sæti í efstu deild á næsta keppnistímabili.
Viðtal við Rúrik: Undir sjálfum mér komið.
Rúrik hefur leikið með Nürnberg frá 2015 þegar félagið keypti hann af FC Köbenhavn í Danmörku. Hann hefur fengið takmörkuð tækifæri að undanförnu, lék 15 deildaleiki á síðasta tímabili og hefur aðeins komið við sögu í fjórum leikjum í vetur.
Sandhausen leikur sitt sjötta tímabil í B-deildinni en þangað komst félagið í fyrsta skipti árið 2013. Liðið náði sínum besta árangri í fyrra, 10. sæti, og er nú komið ofar en nokkru sinni fyrr. Félagið er frá samnefndum bæ í Badem-Württemberg skammt norður af Stuttgart.
Rúrik er 29 ára gamall og lék með HK til 17 ára aldurs, var um skeið hjá Anderlecht í Belgíu, en gekk til liðs við Charlton á Englandi haustið 2005. Þar var hann í tvö ár en spilaði síðan í átta ár í Danmörku með Viborg, OB og FC Köbenhavn en með síðastnefnda liðinu varð hann danskur meistari 2013 og bikarmeistari 2015, ásamt því að spila með liðinu í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.
Hann hefur leikið með íslenska landsliðinu frá 2009 og á að baki 43 landsleiki þar sem hann hefur skorað 3 mörk.