„Ég er afar ánægður með þessi skipti og mér líst virkilega vel á Sandhausen. Þetta er ekki sögufrægasta félag í Þýskalandi en það er á sínu sjötta tímabili í þessari deild, virðist vera að bæta sig og er aðeins tveimur sætum á eftir Nürnberg í deildinni," sagði Rúrik Gíslason, landsliðsmaður í knattspyrnu, við mbl.is í dag, eftir að hann hafði gengist undir læknisskoðun hjá þýska félaginu Sandhausen.
Hann kemur þangað á sex mánaða samningi og er laus allra mála hjá Nürnberg í sömu deild eftir að hafa leikið þar frá sumrinu 2015. Sandhausen kynnti hann til sögunnar sem nýjan leikmann rétt í þessu.
Rúrik gerir sér vonir um að fara beint í byrjunarlið Sandhausen á þriðjudaginn kemur þegar liðið mætir Ingolstadt en þá hefst keppni í B-deildinni aftur eftir vetrarfríið.
„Það verður að sjálfsögðu undir sjálfum mér komið hversu mikið ég spila en ég finn á þjálfaranum sem sótti fast að fá mig til félagsins að hann ætlar mér hlutverk í liðinu. Síðan þarf ég að standa undir því. En ég hlakka mikið til, það er talsverður sjarmi yfir þessu félagi þó að það sé ekki stórt," sagði Rúrik sem er laus frá Nürnberg.
„Já, þeir hjá Nürnberg töldu reyndar allt í einu að það væri ekki sjálfsagt að ég færi þannig að Sandhausen þurfti að greiða einhverja upphæð til að fá mig lausan. En það gekk eftir og nú er ég afar spenntur fyrir framhaldinu," sagði Rúrik sem aðeins fékk tækifæri í fjórum leikjum með Nürnberg fyrri hluta tímabilsins.
„Þetta var skrýtið tímabil og það leit lengi ekkert vel út hjá mér. Ég var meira að segja kominn út úr hópnum og upp í stúku í einhverjum leikjanna. Mér fannst þetta ósanngjarnt en hélt mínu striki og var kominn aftur inn og tók þátt í tveimur síðustu leikjunum fyrir áramót.
Það er annars engin ástæða til að vorkenna fótboltamönnum sem ekki komast í lið og þrátt fyrir allt sem á undan er gengið tel ég að ég hafi bætt mig sem leikmaður hjá Nürnberg og lært heilmikið af dvölinni þar. Það þýðir ekkert að svekkja sig yfir því sem er að baki og að eitthvað hafi farið öðruvísi en ætlað var. Ég tek fullt með mér sem ég lærði hjá Nürnberg og nú tekur við nýr kafli á ferlinum.
Ég er mjög spenntur fyrir því að spila áfram í Þýskalandi. Þessi deild er mjög sterk og skemmtileg, öðruvísi á margan hátt en danska úrvalsdeildin þar sem ég spilaði áður. Það er ekki langt að fara, rúmlega tveggja klukkutíma akstur frá Nürnberg til Sandhausen, þannig að ég þekki allt vel og viðbrigðin eiga ekki að vera mikil,“ sagði Rúrik.
Eins og aðrir landsliðsmenn horfir Rúrik til HM í Rússlandi í sumar og vonast eftir því að vera valinn í endanlegan landsliðshóp Íslands fyrir keppnina.
„Já, það vilja allir vera með á HM og ég er engin undantekning. Það er því mikilvægt fyrir mig að spila sem mest, standa mig vel og komast í góða leikæfingu. Ég er viss um að þessi skipti skemma ekki fyrir mínum möguleikum á að komast í HM-hópinn. Annars mun ég einbeita mér að mínum leik og svo sjáum við til hverju það skilar," sagði Rúrik Gíslason.
Hann fékk kveðju frá Nürnberg og var boðinn velkominn til Sandhausen á Twitter:
Nach zweieinhalb Jahren verlässt @GislasonRurik den Club und wechselt zum @SV_Sandhausen 👉 https://t.co/4fiXsS5mrI
— 1. FC Nürnberg (@1_fc_nuernberg) January 18, 2018
Alles Gute für deine Zukunft, Rurik! #fcn pic.twitter.com/CNxJbiH1nu
Herzlich Willkommen am #Hardtwald, @GislasonRurik!#SVS1916 pic.twitter.com/ifmJ4lJ9Op
— SV Sandhausen 1916 (@SV_Sandhausen) January 18, 2018