St. Gallen vann góðan 2:1-heimasigur á Grasshopper í svissnesku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Leikurinn var sérstakur fyrir Rúnar Má Sigurjónsson, þar sem hann er samningsbundinn Grasshopper en á láni hjá St. Gallen.
Rúnar hélt upp á það með að koma St. Gallen í 1:0 snemma í seinni hálfleik með stórkostlegu marki. Hann fékk þá boltann langt utan teigs, lét vaða og boltinn söng uppi í markvinklinum. Rúnar var ekki hættur því hann lagði upp sigurmarkið, átta mínútum fyrir leikslok. St. Gallen er í 3. sæti deildarinnar með 42 stig og Grasshopper í 6. sæti með 31 stig.
Runar #Sigurjonsson zieht einfach mal ab und schiesst uns mit 1:0 in Führung 💪 Ein herrlicher Treffer!! Hier im Video: pic.twitter.com/hfDhLTxfPe
— FC St.Gallen 1879 (@FCSG_1879) March 17, 2018
Guðlaugur Victor Pálsson lék allan leikinn fyrir FC Zürich sem tapaði fyrir toppliði Young Boys á heimavelli, 2:1. FC Zürich er í 4. sæti deildarinnar með 35 stig.