„Alveg rosalega sætt“

Guðlaugur Victor Pálsson bikarmeistari í Sviss 2018
Guðlaugur Victor Pálsson bikarmeistari í Sviss 2018

„Ég tók við bikarnum fyrir hönd liðsins og það var virkilega gaman að taka svona við fyrsta bikarnum mínum,“ segir Guðlaugur Victor Pálsson, fyrirliði FC Zürich, sem varð svissneskur bikarmeistari í knattspyrnu í gær.

Victor, sem er 27 ára gamall, kom til Sviss frá Danmörku fyrir tímabilið og var aðeins sex mánuði að vinna sér inn stöðu fyrirliða hjá Zürich. Liðið endaði í 4. sæti svissnesku úrvalsdeildarinnar og vann svo meistara Young Boys 2:1 í bikarúrslitaleiknum í gær.

„Þetta var alveg rosalega sætt. Það var ekki til að auðvelda okkur verkið að leikurinn skyldi spilaður á þeirra heimavelli, á gervigrasi. Svo var þetta mjög erfiður leikur þar sem við vorum manni færri í hálftíma og þeir náðu að minnka muninn í 2:1 þegar korter var eftir. Þeir pressuðu rosalega á okkur en við héldum út og þetta er bara geggjað,“ segir Victor, en eins og fyrr segir er þetta hans fyrsti stóri titill á löngum atvinnumannsferli, en hann hefur spilað í sjö löndum.

„Þau lið sem ég hafði verið í áður en ég kom til Zürich voru í baráttu um miðja deild eða í botnbaráttu, svo það er frábært að vera kominn til félags sem berst um toppsæti og titla. Þessi bikarmeistaratitill tryggir að við munum spila í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á næstu leiktíð og það er frábært að vera kominn á þennan stað,“ segir Victor. Það vekur athygli að hann fékk fyrirliðabandið þrátt fyrir að hafa verið stutt hjá félaginu, og til að mynda ekki búinn að ná fullum tökum á þýskunni.

Nánar er rætt við Guðlaug Victor í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert