Waldemar Kita, forseti franska knattspyrnufélagsins Nantes, er allt annað en sáttur við landsliðsmanninn Kolbein Sigþórsson og segir framherjann óheiðarlegan og að hann hugsi of mikið um peninga.
Kolbeini var frjálst að yfirgefa Nantes í sumar að sögn Kita, sem er ósáttur við að Kolbeinn hafi ekki tekið tilboði gríska félagsins Panathinaikos. „Hann fékk tækifæri til að fara til Panathinaikos en hann hafnaði því þar sem hann vildi meira af peningum. Hann er óheiðarlegur og hann hefur ekkert sannað,“ sagði Kita í samtali við Ouest-France.
„Þetta er mér að kenna þar sem ég fékk hann til félagsins, ég ber ábyrgð á þessu. Hann er góður en hann er ekki sterkur andlega og strákarnir í liðinu kunna ekki að meta hann,“ bætti Kita við.
Kolbeinn fékk líka tækifæri til að fara til Zenit í lok síðasta mánaðar, en félagsskiptin náðu ekki í gegn áður en félagsskiptaglugginn lokaðist. Kolbeinn er samningsbundinn Nantes til 2020, en hann hefur aðeins skorað þrjú mörk og spilað 30 leiki síðan hann kom til félagsins frá Ajax sumarið 2015.