Albert Guðmundsson, leikmaður AZ Alkmaar, var útnefndur maður leiksins eftir 1:1 jafntefli liðsins gegn Feyenoord í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær.
Albert var í fyrsta skipti í byrjunarliði AZ Alkmaar á tímabilinu og hann þakkaði traustið með því að skora mark sinna manna en Albert náði forystunni strax á 5. mínútu leiksins. Þetta var hans fyrsta mark í efstu deildinni í Hollandi en Albert lék allan tímann. Albert er í liði vikunnar hjá hollenska blaðinu Telegraaf.
„Við byrjuðum leikinn mjög sterkt og skoruðum gott mark. Við getum verið sáttir við annað stigið en mín tilfinning er sú að við hefðum getað unnið leikinn,“ segir Albert í viðtali á heimasíðu AZ Alkmaar en hann gekk í raðir félagsins frá PSV Eindhoven í sumar.
Albert lék í stöðu sóknartengiliðs í leiknum og skoraði með skoti úr miðjum vítateignum en markið má sjá neðst í fréttinni.
„Það er gaman að spila í þessari stöðu en ég geri mitt besta í þeirri stöðu sem þjálfarinn vill að ég spili. Ég er hrifinn af sóknarbolta, fá boltann í fæturna og skapa færi fyrir mig eða liðsfélaga mína,“ segir Albert á vef AZ Alkmaar.
AZ Alkmaar er í 5. sæti deildarinnar eftir fimm umferðir með 8 stig en næsti leikur liðsins er útileikur á móti Groningen á sunnudaginn.