Jón Dagur Þorsteinsson, unglingalandsliðsmaður í knattspyrnu, fær mikið hrós frá sínum nýja þjálfara hjá Vendsyssel í Danmörku eftir frammistöðu sína um helgina. Hann var þá í fyrsta sinn í byrjunarliðinu og lagði upp mark í 1:1 jafntefli.
„Við vitum að hann er ungur en við sáum í leiknum hvað hann getur gefið liðinu. Hann er erfiður við að eiga og er mjög fær í að sækja á menn einn á einn. Svo er hann með frábæra spyrnugetu í báðum fótum. Hann vinnur einnig mjög vel varnarlega. Hann er ekki sá hávaxnasti en fer óhræddur í skallaeinvígi svo það sést að hann hefur spilað á Englandi. Það verður mjög spennandi að fylgjast með honum, hann hefur mikla möguleika og leggur hart að sér,“ sagði Jens Berthel Askou þjálfari um Jón Dag við Bold.
Jón Dagur var að spila sinn annan leik fyrir Vendsyssel síðan hann var lánaður þangað frá Fulham á Englandi undir lok síðasta mánaðar. Hann hefur þótt spila vel með varaliði Fulham en hefur ekki fengið tækifæri í mótsleikjum með aðalliðinu. Hann er 19 ára gamall og hefur verið fastamaður í U21 árs landsliði Íslands.