Heimir Guðjónsson og strákarnir hans í HB stefna nú að því að slá nýtt stigamet í færeysku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og þeir hafa öll tök á að gera það.
HB fagnaði á dögunum meistaratitlinum og í gær hélt liðið sigurgöngu sinni áfram. HB skellti EB/Streymur 3:0 á útivelli og er með 14 stiga forskot á toppi deildarinnar.
HB er með 64 stig en stigametið er í eigu B36 sem fékk 67 stig árið 2011. Níu stig eru enn þá eftir í pottinum.
Heimir tók við liði HB fyrir tímabilið og á dögunum framlengdi hann samning sinn við færeysku meistarana og er samningsbundinn þeim út næstu leiktíð. Tveir Íslendingar leika með HB, Brynjar Hlöðversson og Grétar Snær Gunnarsson.