Þjóðverjinn Michael Skibbe var í dag rekinn úr starfi landsliðsþjálfara Grikklands í knattspyrnu vegna slaks gengis Grikkja í Þjóðadeild UEFA. Gríska knattspyrnusambandið greindi frá þessu í dag.
Angelos Anastasiadis hefur verið ráðinn þjálfari í stað Skibbe og er þetta í fyrsta sinn í 17 ár sem heimamaður þjálfar landsliðið.
Skibbe hefur verið í þjálfarastarfinu hjá Grikkjum frá því árinu 2015 og í fyrra framlengdi hann samning sinn. Grikkir voru nálægt því að tryggja sér sæti á HM í Rússlandi í sumar en þeir töpuðu fyrir Króötum í umspili um sæti í keppninni.
Grikkir hafa tapað tveimur af fjórum leikjum sínum í C-deild Þjóðadeildarinnar og eru sex stigum á eftir Finnum sem eru með fullt hús stiga.