Norðmaður á leið til Lokeren

Arnar Þór Viðarsson aðstoðarþjálfari Lokeren á æfingu liðsins fyrir helgina.
Arnar Þór Viðarsson aðstoðarþjálfari Lokeren á æfingu liðsins fyrir helgina. Ljósmynd/Kristján Bernburg

Norðmaðurinn Trond Sollied verður að óbreyttu næsti þjálfari belgíska knattspyrnuliðsins Lokeren, sem rak Peter Maes um helgina.

Het Niewsblad skýrir frá því í dag að viðræður Lokeren við Sollied séu langt komnar. Blaðið segir að Arnar Þór Viðarsson aðstoðarþjálfari muni stjórna æfingum út þessa viku, og stýra liðinu gegn Anderlecht á fimmtudaginn, en síðan taki nýi þjálfarinn við á föstudaginn.

Sollied er 59 ára gamall fyrrverandi landsliðsmaður Noregs. Hann hefur ekki þjálfað í fimm ár af persónulegum ástæðum, dró sig í hlé vegna veikinda í fjölskyldunni, og var síðast með tyrkneska liðið Elazigspor, sem Theódór Elmar Bjarnason leikur nú með.

Hann hefur lengi þjálfað í Belgíu, var þar síðast með Gent tímabilið 2011-12, og var þá í þriðja skipti með liðið, en áður einnig með Lierse og Club Brugge, hollenska liðið Heerenveen, gríska liðið Olympiacos, Al Ahli Jeddah í Sádi-Arabíu og norsku liðin Rosenborg og Bodø/Glimt þar sem hann hóf þjálfaraferilinn árið 1992. Sollied vann belgíska meistaratitilinn tvívegis og bikarkeppnina tvívegis með Club Brugge.

Sjálfur lék Sollied 262 deildaleiki með Bodø/Glimt, Rosenborg og Vålerenga og 15 landsleiki fyrir Noreg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert