Svava talin ein þriggja bestu í Noregi

Svava Rós fagnar marki með Røa.
Svava Rós fagnar marki með Røa. Ljósmynd/Røa

Svava Rós Guðmundsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður Røa, er talin ein af þremur bestu leikmönnum tímabilsins í norsku úrvalsdeildinni af fótboltatímaritinu Kvinnefotballmagasinet.

Svava Rós gekk í raðir Røa frá Breiðabliki í janúar á þessu ári og hefur átt afar góðu gengi að fagna á sínu fyrsta ári sem atvinnumaður. Hún er að mati Kvinnefotballmagasinet ein þriggja bestu í deildinni ásamt Stine Hovland úr Sandviken og Guro Reiten úr Lilleström.

„Höfum við séð betri framherja síðan Isabell Herlovsen var upp á sitt besta? Það eru ekki bara mörkin sem hún hefur skorað því hún er sterk, fljót og árásargjörn, er jafnvíg á hægri og vinstri fæti og er góður skallamaður. Maður spyr sig hvað hún myndi gera sem framherji í liði Lilleström,“ segir í umsögn Kvinnefotballmagasinet um Svövu Rós.

Svava hefur skorað 14 mörk í þeim 20 leikjum sem hún hefur komið við sögu í norsku úrvalsdeildinni á tímabilinu og er hún í 2.-4. sæti yfir markahæstu leikmenn deildarinnar en lokaumferðin verður leikin um næstu helgi.

Svava Rós er 23 ára gömul og á að baki 12 leiki með A-landsliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert