Svava Rós Guðmundsdóttir hefur farið á kostum með Óslóarliðinu Röa Dynamite Girls á leiktíðinni. Hún hefur skorað 14 mörk í deildinni í 20 leikjum og alls 17 mörk þegar mörk í bikarkeppninni eru tekin með í reikninginn.
Í vikunni var hún útnefnd sem ein af þremur bestu leikmönnum úrvalsdeildarinnar á tímabilinu hjá Kvinnefotballmagasinet. Svava gekk til liðs við Röa í byrjun ársins frá Breiðabliki og gerði samning út keppnistímabilið en því lýkur um næstu helgi þegar Svava og samherjar sækja meistaralið Lilleström heim.
Röa situr í 7. sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina og stefnir flest í að það verði uppskeran þegar upp verður staðið. „Okkur hefur gengið misjafnlega og helsta ástæða þess er að við höfum fengið of mikið af mörkum á okkur. Fyrir vikið siglum við lygnan sjó um miðja deild og erum hvorki í fallhættu né í toppbaráttu fyrir lokaumferðina,“ sagði Svava Rós þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hennar í gær.
Hún segir að þrátt fyrir misjafnt gengi liðsins þá sé reynsla sín af verunni hjá Röa mjög góð. „Mér hefur gengið vonum framar auk þess sem sjálfstraustið hefur styrkst. Þjálfari liðsins er góður og hefur hjálpað mér mikið. Mér líður vel hjá liðinu og í Noregi og ég hef tvímælalaust tekið framförum sem knattspyrnukona. Hlutverk mitt er reyndar ekki það sama og áður. Ég lék yfirleitt á kantinum en hef fært mig yfir í framlínuna þar sem ég kann ákaflega vel mig,“ sagði Svava Rós sem hefur svo sannarlega verið á skotskónum á keppnistímabilinu.
„Mér hefur gengið vel að skora.Fyrirfram setti ég mér háleit markmið fyrir tímabilið í nýrri stöðu en segja má að útkoman sé mjög góð með fjórtán mörk í deildinni og þrjú til viðbótar í bikarkeppninni.“ Svava Rós hefur skorað ríflega þriðjung marka Röa í deildarkeppninni en alls hefur liðið skorað 40 sinnum. Aðeins Lilleström, 65, og Arna-Björnar, 53, hafa skorað fleiri mörk. Röa hefur fengið á sig 36 mörk sem undirstrikar það sem Svava Rós segir að framan af hafi varnarleikurinn ekki verið nægilega góður. Þann þátt þarf að styrkja fyrir næsta keppnistímabil ætli liðið sér að þokast framar.
Svava Rósa segist vera afar stolt yfir að vera í áðurnefndum þriggja kvenna hópi. Hinar tvær eru Guro Reiter, markahrókur Lilleström, sem skorað hefur 19 mörk í deildinni og Stine Hovland hjá IL Sandviken. „Ég er stolt yfir að vera í þessum þriggja manna hópi. Það segir mér að einhverjir hafa tekið eftir mér og ég er ánægð með það og ekki síður það sem segir í umsögninni á Facebook-síðu Kvinnefotballmagasinet,“ sagði Svava Rós sem vildi ekkert segja um hvort hún gerði sér vonir um að hreppa hnossið.
Sjá allt viðtalið við Svövu Rós í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag