„Ég veit það fyrir víst að Elísabet Gunnarsdóttir er frábær þjálfari og liðið stóð sig mjög vel í deildinni í ár. Mér leist vel á það sem Kristianstad hafði upp á að bjóða og ég ákvað þess vegna að slá til,“ sagði knattspyrnukonan Svava Rós Guðmundsdóttir í samtali við mbl.is í gær en hún skrifaði undir samning við sænska úrvalsdeildarliðið Kristianstad í síðustu viku. Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Kristianstad en Sif Atladóttir landsliðskona hefur leikið með liðinu frá árinu 2011.
Svava lék með norska liðinu Røa á síðustu leiktíð í norsku úrvalsdeildinni og stóð sig afar vel en hún var næst markahæsti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar með fjórtán mörk.
„Það voru nokkur lið sem sýndu mér áhuga en Kristianstad lagði áherslu á að fá mig. Ég tel að Beta geti gert mig að betri leikmanni en ég er í dag og það er stór ástæða fyrir því að ég ákvað að fara til Svíþjóðar. Ég á von á því að ég verði notaður sem framherji hjá Kristianstad þótt það sé ekkert útilokað að ég muni spila á kantinum líka í einhverjum leikjum. Á meðan ég fæ að spila þá skiptir það mig ekki máli í hvaða leikstöðu ég verð en ég skal alveg viðurkenna það að mér líður best í framherjastöðunni í dag.“
Svava vonast til þess að hjálpa Kristianstad að berjast um titilinn í Svíþjóð á næstu árum en Björn Sigurbjörnsson, eiginmaður Sifjar Atladóttur og aðstoðarþjálfari Kristianstad, er náskyldur Svövu og þær þekkjast því vel.
„Ég hef heyrt frá Sif í gegnum tíðina, hvernig andrúmsloftið hjá Kristianstad er. Það hefur verið mikið lagt í félagið á undanförnum árum og öll æfingaaðstaðan þarna hefur sem dæmi batnað til muna. Liðið hefur verið á ákveðinni uppleið frá því að Beta tekur við og markmiðið hjá félaginu er að vera í toppbaráttu á næstu árum. Þessi stefna félagsins heillaði mig og ég markmiðið mitt er að skora mörk og hjálpa félaginu að ná markmiðum sínum,“ sagði Svava Rós Guðmundsdóttir í samtali við mbl.is.