Vialli glímir við krabbamein

Gianluca Vialli á verðlaunahátíð FIFA í september þar sem besta …
Gianluca Vialli á verðlaunahátíð FIFA í september þar sem besta knattspyrnufólk heims var heiðrað. AFP

Ítalinn Gianluca Vialli hefur greint frá því að hann hafi glímt við krabbamein síðastliðið ár. Þessi fyrrverandi leikmaður ítalska landsliðsins, Chelsea, Juventus og Sampdoria, og síðar knattspyrnustjóri Chelsea og Watford, er 54 ára gamall.

„Það er í lagi með mig núna, mér líður bara mjög vel. Það er komið ár núna og ég er aftur kominn í toppástand, en get þó ekki með neinni vissu sagt hvernig þessi leikur muni enda,“ segir Vialli í viðtali við Corriere della Serra, en hann hefur verið átta mánuði í lyfjameðferð.

„Þetta er erfitt og það hefur verið erfitt að segja öðrum frá þessu, fjölskyldunni minni. Maður vill aldrei þurfa að valda því að fólkið sem elskar mann verði leitt: foreldrar mínir, bræður mínir og systir, Cathryn eiginkona mín og litlu stelpurnar okkar, Olivia og Sofia. Og maður finnur fyrir skömm, svona eins og að það sem gerðist sé manni sjálfum að kenna,“ sagði Vialli.

„Ég klæddi mig í peysu undir skyrtuna til þess að enginn tæki eftir neinu. Ég var samt enn sami Vialli og allir þekktu. Svo ákvað ég að segja mína sögu. Ég vona að saga mín verði öðrum hvatning, sem standa á erfiðum tímamótum í sínu lífi,“ sagði Vialli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert