Arnór Sigurðsson er í byrjunarliði CSKA Moskva sem tekur á móti tékkneska liðinu Viktoria Plzen í næst síðustu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu en flautað verður til leiks í Moskvu klukkan 20.
Arnór lék ekki með CSKA Moskva í deildinni um síðustu helgi vegna meiðsla en Skagamaðurinn hefur hrist af sér meiðslin og er klár í slaginn í kvöld. Arnór skoraði mark rússneska liðsins í 2:1 gegn Roma í síðustu umferð og var það jafnframt fyrsta mark hans í Meistaradeildinni. Hörður Björgvin Magnússon fékk rautt spjald í þeim leik og hann tekur út leikbann í kvöld.
Liðið á enn veika von um sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar með sigri í kvöld en Real Madrid og Roma eru með 9 stig, CSKA 4 og Viktoria eitt.
CSKA þyrfti að sigra Real Madrid öðru sinni, á Santiago Bernabéu, til að komast upp fyrir Evrópumeistarana, sem auk þess þyrftu að tapa gegn Roma í kvöld.
En liðin sem enda í þriðja sæti riðlanna í Meistaradeildinni fara yfir í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar og þann áfanga geta Hörður og Arnór gulltryggt með sigri á Tékkunum í kvöld.
#CSKA XI for @ChampionsLeague clash against @fcviktorkaplzen pic.twitter.com/VKAFeSQ5GO
— PFC CSKA Moscow (@PFCCSKA_en) November 27, 2018