Ada Hegerberg er ein þeirra 15 knattspyrnukvenna sem mögulega gætu í kvöld hlotið Gullboltann, sem í fyrsta sinn í ár verður bæði veittur til þess knattspyrnukarls og knattspyrnukonu sem þótt hefur skara fram úr á árinu.
Það er France Football sem stendur fyrir kjörinu en tímaritið hefur staðið fyrir vali á besta knattspyrnukarli heims frá árinu 1956.
Þó að Hegerberg komi til greina sem besta knattspyrnukona heims þá komst hún ekki í „lið ársins“ heima í Noregi, þegar hin svokölluðu NISO-verðlaun voru afhent. Það eru leikmannasamtökin í Noregi sem standa fyrir því vali, og koma bæði til greina leikmenn sem spila í Noregi, norskir og erlendir leikmenn, sem og norskir leikmenn sem spila utan Noregs. Hegerberg er í síðarnefnda hópnum en hún er stjörnuframherji Lyon og varð Evrópumeistari og Frakklandsmeistari með liðinu síðasta vor.
„Þetta kom okkur svolítið á óvart,“ sagði Thomas Kristensen, talsmaður norsku leikmannasamtakanna um þá staðreynd að Hegerberg skyldi ekki komast í lið ársins. Nefndi hann að þar gæti spilað inn í að Hegerberg væri hætt að spila með norska landsliðinu og að þátttakendur í kjörinu, leikmenn í Noregi, sæju lítið af leikjum utan Noregs.
Íslenska landsliðskonan Svava Rós Guðmundsdóttir, sem skoraði 14 mörk í 21 leik fyrir Röa í norsku úrvalsdeildinni í ár, og markadrottningin Guro Reiten, sem valin var besti leikmaður ársins, mynda þess í stað framherjaparið í liði ársins í Noregi. Hegerberg mun hafa orðið í 3. sæti í valinu á bestu framherjunum.
Eftir tímabilið með Röa gekk Svava Rós í raðir Kristianstad í Svíþjóð þar sem hún mun leika undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur á næsta ári.