Orri vill komast burt frá Sarpsborg

Orri Sigurður Ómarsson
Orri Sigurður Ómarsson mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ég ætla mér í burtu héðan þegar þessu tímabili lýkur en það er ekkert komið á hreint hvert ég fer og hvort það verði sem lánsmaður eða hvort eitthvert félag kaupi mig,“ sagði knattspyrnumaðurinn Orri Sigurður Ómarsson hjá Sarpsborg í Noregi við Morgunblaðið í gær.

Sarpsborg keypti Orra af Val fyrir ári og samdi við hann til þriggja ára en lánaði hann til HamKam í norsku B-deildinni fyrri hluta tímabilsins. Þar spilaði hann alla leiki liðsins í byrjunarliði en eftir að hann kom aftur til Sarpsborg á miðju tímabili hefur hann aðeins komið við sögu í tveimur leikjum í úrvalsdeildinni og ekkert tekið þátt í óvæntri framgöngu liðsins í Evrópudeild UEFA, sem stendur enn yfir.

„Ég hef látið mína umboðsmenn vita að þetta gangi ekki og ég vilji fara en lengra er málið ekki komið,“ sagði Orri, sem í gær spilaði seinni hálfleikinn í æfingaleik gegn Sogndal og lagði upp sigurmark Sarpsborg í 3:2-sigri. Lið hans mætir Genk á útivelli í Belgíu í lokaumferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar næsta fimmtudag og myndi með sigri tryggja sér sæti í 32 liða úrslitum keppninnar.

Sjá allt viðtalið við Orra Sigurð í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert