Theódór Elmar Bjarnason er orðinn leikmaður tyrkneska liðsins Gazisehir en greint er frá því á heimasíðu félagsins í morgun að hann hafi skrifað undir eins og hálfs ár samning við félagið.
Gazisehir er í þriðja sæti B-deildarinnar þegar 17 umferðum er lokið af 34 en keppni hefst á ný að loknu stuttu vetrarfríi eftir hálfan mánuð.
Elmar rifti samningi sínum við tyrkneska B-deildarfélagið Elazigspor í nóvember á síðasta ári vegna vangoldinna launa. Gazisehir er frá borginni Gaziantep, sjöttu stærstu borg Tyrklands, sem er í suðausturhluta landsins, aðeins tæpa 100 kílómetra norður af Aleppo í Sýrlandi sem hefur verið mikið í fréttum undanfarin ár vegna stríðsátaka.
Theódór Elmar er 31 ára gamall sem á 41 leik að baki með íslenska landsliðinu og hefur í þeim skorað 1 mark. Hann er uppalinn KR-ingur en fór ungur að árum í atvinnumennsku og hefur spilað með skoska liðinu Celtic, Lyn í Noregi, Gautaborg í Svíþjóð, danska liðinu AGF og Elazigspor í Tyrklandi.
I am very excited to sign for the amazing club of Gazisehir, now I look forward to help the team to promote to the superleague @GazisehirFK 👊🏻 pic.twitter.com/1R5y3qJ7bG
— Elmar Bjarnason (@ElmarBjarnason) January 5, 2019