Anna Björk til PSV

Anna Björk skrifar undir samninginn við PSV í dag.
Anna Björk skrifar undir samninginn við PSV í dag. Ljósmynd/PSV

Landsliðskonan Anna Björk Kristjánsdóttir er gengin í raðir hollenska úrvalsdeildarliðsins PSV Eindhoven en hún hefur spilað með sænska liðinu Limhamn Bunkeflo undanfarin tvö ár. Samningur Önnu við hollenska liðið gildir út leiktíðina.

Anna Björk og Rakel Hönnudóttur áttu stóran þátt í að Limhamn Bunkeflo tókst að halda sæti sínu í deildinni. Rakel skoraði í fimm af síðustu sex leikjum tímabilsins og endaði markahæst með 8 mörk, en Anna Björk stóð vaktina í vörninni sem hélt markinu hreinu í þremur af síðustu fimm leikjunum.

Anna Björk, til hægri, með treyju PSV.
Anna Björk, til hægri, með treyju PSV. Ljósmynd/PSV

Anna Björk er 29 ára gömul og leikur í stöðu miðvarðar. Hún á að baki 40 leiki með íslenska A-landsliðinu og hefur leikið með öllum yngri landsliðunum. Anna hóf sinn feril með KR sem hún lék með frá 2004-08 en fór þaðan til Stjörnunnar sem hún lék með frá 2009 til 2016. Frá Stjörnunni fór hún til sænska liðsins Örebro og þaðan til Limhamn Bunkeflo.

„Ég er mjög stolt að verða fyrsta íslenska konan til að spila með þessu stóra félagi næstu mánuði,“ segir Anna Björk á vef PSV Eindhoven.

PSV er í toppsæti deildarinnar. Liðið er með 37 stig eftir 14 leiki, fjórum stigum meira en Twente sem er í öðru sætinu. Níu lið skipa efstu deildina í Hollandi og eru spilaðar 24 umferðir og spila fimm efstu liðin til úrslita um meistaratitilinn. Hlé var gert á deildinni fyrir jól en keppni hefst að nýju í henni 1. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert