Er sáttur við þessa niðurstöðu

Emil Hallfreðsson í leik með íslenska landsliðinu gegn Króötum á …
Emil Hallfreðsson í leik með íslenska landsliðinu gegn Króötum á HM í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Emil Hallfreðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er laus allra mála frá ítalska A-deildarliðinu Frosin­o­ne en eins og fram kom á mbl.is fyrr í dag hef­ur hann fengið samn­ingi sín­um við félagið rift.

Emil er að jafna sig eftir aðgerð á hné sem hann gekkst undir í byrjun desember og þegar mbl.is hafði samband við hann í dag var hann nýlentur í Barcelona þar sem hann fer í endurmat hjá lækninum sem framkvæmdi aðgerðina á honum.

„Þetta var sameiginleg ákvörðun á milli mín og félagsins að rifta samningnum. Ég átti eitt og hálft ár eftir af samningi mínum en við náðum samkomulagi um starfslokasamning. Ég er sáttur við þessa niðurstöðu og ég taldi best að gera þetta fyrir mig og mína fjölskyldu,“ sagði Emil, sem gekk í raðir Fros­in­o­ne frá Udinese síðastliðið sumar.

Ætlar að spila áfram úti

Emil er ekkert á heimleið að spila í Pepsi-deildinni. Hans hugur stefnir á að vera áfram úti í atvinnumennskunni en Emil hefur spilað á Ítalíu undanfarin 12 ár með Reggina, Verona, Udinese og Fros­in­o­ne en þar áður hafði hann spilað með Malmö í Svíþjóð, Lyn í Noregi og þá lék hann eitt tímabil með enska liðinu Barnsley. Emil fór ungur að árum frá FH til Tottenham árið 2005 þar sem hann lék með unglinga-og varaliði félagsins

„Ég hef tíma til 28. febrúar til að skrifa undir hjá öðru félagi á Ítalíu og ég veit að það er áhugi á mér en eins og staðan er núna er ég að jafna mig eftir aðgerðina. Ég er allur að koma til. Aðgerðin tókst vel og það hefur ekki komið neitt upp á. Ég átti að vera frá keppni í þrjá til fjóra mánuði og það verður gaman að heyra hvað læknirinn segir mér á morgun. Ég kem svo heim til Íslands og held áfram í endurhæfingunni þar.

Ég tel mig eiga nóg eftir og þegar hnéð verður komið í lag þá verð ég í toppstandi. Mig langar að vera áfram úti og spila í nokkur ár til viðbótar,“ sagði Emil, sem er 34 ára gamall. Hann á að baki 67 leiki með íslenska landsliðinu og var að flestra mati besti leikmaður íslenska landsliðsins á HM í Rússlandi í sumar. Ljóst er að hann missir af fyrstu leikjum landsliðsins í undankeppni EM sem verða gegn Andorra og Frakklandi á útivelli 22. og 25. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert