Of dýr fyrir gríska toppliðið?

Sverrir Ingi Ingason í leik Íslands og Króatíu á HM …
Sverrir Ingi Ingason í leik Íslands og Króatíu á HM síðasta sumar Eggert Jóhannesson

Flest bendir til þess að ekkert verði af kaupum gríska knattspyrnufélagsins PAOK Saloniki á landsliðsmiðverðinum Sverri Inga Ingasyni frá Rostov í Rússlandi en fyrir rúmri viku hófust viðræður á milli félaganna um möguleg kaup gríska félagsins á honum.

Samkvæmt heimildum mbl.is eru Grikkirnir ekki tilbúnir til að greiða það verð sem Rostov vill fá fyrir Sverri Inga en það mun vera um 7 milljón evrur, eða ríflega 950 milljónir íslenskra króna. PAOK er með yfirburðaforystu í grísku úrvalsdeildinni, hefur unnið sextán leiki og gert eitt jafntefli í 17 umferðum og er átta stigum á undan Olympiacos sem er í öðru sæti.

Sverrir er þessa dagana með liði Rostov í æfingabúðum í Katar, en með því spila einnig Ragnar Sigurðsson, Björn Bergmann Sigurðarson og Viðar Örn Kjartansson. Liðið mætir rússneska toppliðinu Zenit Pétursborg í æfingaleik síðar í dag en það er fjórði leikur Rostov í ferðinni. Rússneska úrvalsdeildin er í vetrarfríi, þar var síðast spilað 8. desember og hún hefst ekki á ný fyrr en 2. mars. Þar er Rostov í 7. sæti. Liðið á eftir að fara til Spánar og spila þar við norsku Íslendingaliðin Vålerenga og Viking, en á síðan bikarleik gegn Jóni Guðna Fjólusyni og  félögum í Krasnodar 23. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert