Sverrir Ingi Ingason, landsliðsmaður í knattspyrnu, var rétt í þessu staðfestur sem nýr leikmaður gríska toppliðsins PAOK frá Thessaloniki sem kaupir hann af Rostov í Rússlandi. Formleg staðfesting verður reyndar í fyrramálið en félagið setti mynd á Twitter í kvöld sem sýndi nýjan leikmann í búningi félagsins og ekki fer á milli mála að þar er Sverrir á ferð.
Sverrir kom til Thessaloniki um miðjan dag í gær, gekkst undir læknisskoðun og gekk frá samningum.
Samkvæmt rússneskum fjölmiðlum er kaupverðið fjórar milljónir evra, sem samsvarar um 550 milljónum íslenskra króna.
Sverrir kom til Rostov sumarið 2017 og var samningsbundinn til 2020. Hann hefur verið mikilvægur hlekkur hjá Rostov og er búinn að spila 90 mínútur í öllum 19 leikjum liðsins á tímabilinu.
Sverrir er búinn að spila 26 landsleiki fyrir Ísland og skora í þeim þrjú mörk. Hann er uppalinn í Breiðabliki og hefur áður leikið með Viking Stavanger, Lokeren og Granada á atvinnumannsferlinum.
PAOK, sem er frá Saloniki í norðurhluta Grikklands, trónir á toppi grísku úrvalsdeildarinnar, með 17 sigra og eitt jafntefli í 18 leikjum og átta stiga forskot á Olympiacos, enda þótt liðið hafi byrjað tímabilið með tvö stig í mínus.
PAOK sækir grísku meistarana í AEK heim til Aþenu í 19. umferð deildarinnar á sunnudaginn kemur.