Búinn að vera frábær tími

Fanndís Friðriksdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir í Adelaide.
Fanndís Friðriksdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir í Adelaide. Ljósmynd/@AUFC Women

„Þetta er búinn að vera alveg frábær tími en ég er svekkt að hafa ekki náð inn í úrslitakeppnina. Það munaði ekki miklu,“ sagði landsliðskonan Fanndís Friðriksdóttir í samtali við mbl.is.

Fanndís og liðsfélagi hennar í landsliðinu, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, léku í morgun kveðjuleik sinn með Adelaide United í áströlsku úrvalsdeildinni þegar liðið lagði Brisbane Roar 1:0 og skoraði Gunnhildur Yrsa sigurmarkið með skalla eftir góða fyrirgjöf Fanndísar.

Þær Fanndís og Gunnhildur fóru til Adelaide í lok september en deildarkeppnin hófst í október og lék Adelaide sinn síðasta leik í dag á tímabilinu. Fjögur efstu liðin leika til úrslita um meistaratitilinn en Adelaide hafnaði í sjötta sæti og var aðeins einu stigi frá liðinu í fjórða sæti. Á síðustu leiktíð hafnaði Adelaide í neðsta sæti svo þær Fanndís og Gunnhildur hafa svo sannarlega náð að bæta leik liðsins.

„Hvort maður komið hingað aftur og spilar verður bara að koma í ljós en þetta er búið að vera mikið ævintýri,“ sagði Fanndís.

Fanndís og Gunnhildur með Íslendingum á leiknum í dag.
Fanndís og Gunnhildur með Íslendingum á leiknum í dag. Ljósmynd/twitter-síða Adelaide

Undanfarna daga hafa borist fréttir af mikilli hitabylgju í Ástralíu þar sem hitinn hefur farið yfir 40 stig á mörgum stöðum.

„Hitinn er ekki búinn að vera eins slæmur og ég hélt. Það getur auðvitað orðið mjög heitt hérna en það hefur bara gengið vel að spila í hitanum,“ sagði Fanndís, sem skoraði 2 mörk í þeim 11 leikjum sem hún spilaði í. Gunnhildur lék alla tólf leikina og skoraði eitt mark.

Fanndís tekur nú upp þráðinn með Val en hún gekk í raðir félagsins um mitt sumar í fyrra eftir að hafa spilað með franska liðinu Marseille. Gunnhildur heldur hins vegar til Bandaríkjanna en hún er samningsbundinn Utah Royals. Keppni í bandarísku atvinnumannadeildinni hefst í næsta mánuði.

 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert