Knattspyrnumaðurinn Adam Örn Arnarson er búinn að skrifa undir eins og hálfs árs samning við pólska A-deildarfélagið Górnik Zabrze. Félagið staðfesti þetta í dag. Adam kemur frá norska félaginu Álasundi, þar sem hann hafði verið frá árinu 2016.
Álasundi mistókst að fara upp í efstu deild Noregs á leiktíðinni og ákvað Adam því að róa á önnur mið. Hann hefur æft með pólska félaginu undanfarna daga og unnið sér inn samning.
Adam er uppalinn hjá Breiðabliki og hefur auk þess leikið með NEC Nijmegen í Hollandi og Nordsjælland Í Danmörku. Górnik Zabrze er í 15. sæti af 16 liðum í efstu deild Póllands.
Bakvörðurinn er þriðji íslenski knattspyrnumaðurinn sem spilar í Póllandi. Böðvar Böðvarsson spilar með Jagiellonia Bialystok og Árni Vilhjálmsson er hjá Bruk-Bet Termalica Nieciecza í B-deildinni.