Svava Rós Guðmundsdóttir skaut Kristianstad í undanúrslit sænska bikarsins í fótbolta í dag. Hún skoraði jöfnunarmarkið gegn Rosengård í lokaleik liðanna í 2. riðli. Bæði lið enda með sjö stig í riðlinum en Kristianstad er með betri markatölu og tekur því toppsætið.
Mark Svövu kom á 60. mínútu. Hún lék allan leikinn, eins og Sif Atladóttir. Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir kom inn á sem varamaður á 63. mínútu en fór aftur af velli í uppbótartíma. Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar Kristianstad. Glódís Perla Viggósdóttir spilaði allan leikinn með Rosengård, sem er úr leik.
Anna Rakel Pétursdóttir spilaði allan leikinn með Linköping sem tapaði fyrir Gautaborg, 3:0, og mistókst því að komast í undanúrslit. Andrea Thorisson lék síðustu 17 mínúturnar með Limhamn Bunkeflo sem vann 2:1-sigur á Kalmar, en tókst ekki að tryggja sér sæti í undanúrslitum.