Sóttur til Noregs af sænska stórveldinu

Magni Fannberg snýr aftur til Stokkhólms eftir þrjú ár hjá …
Magni Fannberg snýr aftur til Stokkhólms eftir þrjú ár hjá Brann. Ljósmynd/brann.no

Knattspyrnuþjálfarinn Magni Fannberg var í dag ráðinn þróunarstjóri hjá sænska meistaraliðinu AIK frá Stokkhólmi en hann hefur gegnt sama starfi hjá norska félaginu Brann í Bergen frá 2016 og hafði nýlega skrifað þar undir nýjan samning til þriggja ára. Hann tekur formlega við starfinu 1. júlí.

Bæði félögin greindu frá ráðningu Magna til AIK rétt í þessu en sem þróunarstjóri (utvecklingschef á sænsku, utviklingsjef á norsku) hefur hann yfirumsjón með þróun yngri leikmanna félagsins í karlaflokki á fjölbreyttan hátt.

Magni, sem er 39 ára gamall, þjálfaði á Íslandi til 2008, síðast lið Fjarðabyggðar í 1. deild, en var síðan í Svíþjóð til 2016 og þjálfaði í sex ár hjá Brommapojkarna í Stokkhólmi, þar af var hann eitt ár með karlalið félagsins í B-deildinni. Magni hefur búið í Stokkhólmi mestallan tímann sem hann hefur starfað hjá Brann.

Magni hentaði ákaflega vel

„Við erum geysilega ánægðir með að hafa fengið Magna í okkar akademíu. Við vorum búnir að stilla upp nákvæmlega hvernig mann við vildum í starfið og komumst fljótlega að því að Magni hentaði ákaflega vel. Nú fer hann að kynna sér AIK betur og setja sig inn í verkferlana hjá félaginu,“ segir yfirmaður akademíu AIK, Johannes Wiklund, á vef sænska félagsins.

AIK er almennt metið stærsta knattspyrnufélag Svíþjóðar en það varð Svíþjóðarmeistari karla í tólfta sinn á síðasta ári, hefur undanfarin sex ár ávallt verið í hópi þriggja efstu liðanna og oftast allra verið á þeim stað í deildinni frá aldamótum. Þá hefur AIK oftast allra sænskra  félaga leikið í Evrópukeppni og hefur löngum verið með mestu aðsókn af öllum liðum á Norðurlöndum, oft með meðaltal um og yfir 20 þúsund manns á leik en heimavöllur liðsins er Friends Arena í Solna sem tekur ríflega 50 þúsund áhorfendur.

„Það er afar áhugaverð og mikil áskorun að fá að taka þátt í þróunarstarfinu í besta og stærsta knattspyrnufélagi Svíþjóðar. Ég er geysilega stoltur og mun leggja mig allan fram um að gera sem best í mjög spennandi umhverfi,“ segir Magni á vef AIK.

Hann er jafnframt í viðtali á vef Brann og kvaddur þar en hjá Brann hefur uppbyggingarstarfið undir hans stjórn vakið mikla athygli síðustu ár og Bergens Tidende fjallaði einmitt um það í gær að það hefði aldrei verið blómlegra og bent á að Brann ætti um þessar mundir 14 leikmenn í yngri landsliðum Noregs.

Magni Fannberg að störfum sem þjálfari Brommapojkarna en hann stýrði …
Magni Fannberg að störfum sem þjálfari Brommapojkarna en hann stýrði liðinu í sænsku B-deildinni árið 2015. Ljósmynd/Erik Bjernulf

Miðpunktur í uppbyggingarstarfi Brann

Á vef Brann tilgreinir Magni tvær ástæður fyrir vistaskiptunum: „Annars vegar býr fjölskyldan í Stokkhólmi og það er ekki einfalt mál, enda þótt það hafi allt saman gengið upp, og hins vegar er AIK stórt og spennandi félag og freistingin var of mikil þegar þeir höfðu samband,“ segir Magni.

Rune Soltvedt íþróttastjóri Brann segir að Magni hafi verið miðpunktur í uppbyggingarstarfi norska félagsins. „Hann og hópurinn í akademíunni hafa unnið hörðum höndum og markvisst að því að auka gæðin hjá félaginu. Við vissum að sá tími gæti komið að hann vildi snúa aftur til Svíþjóðar og við skiljum hans ákvörðun,“ segir Soltvedt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert