„Þetta kom upp nýlega vegna þess að aðstoðarþjálfari liðsins er að taka „Pro Licence“-þjálfararéttindin í Kína í ár. Mixu óskaði eftir því að fá mig með sér og þegar ég var búinn að fá staðfestingu á að ég mætti gera þetta af fullum krafti frá stjórn sambandsins þá ákvað ég að taka slaginn,“ segir Þorlákur Már Árnason, sem frá áramótum hefur verið yfirmaður knattspyrnumála hjá knattspyrnusambandi Hong Kong, en í dag tekur hann jafnframt við starfi aðstoðarþjálfara karlalandsliðs þjóðarinnar og gegnir því út þetta ár.
Finninn Mixu Paatelainen, sem áður var m.a. samherji Guðna Bergssonar hjá Bolton í enska fótboltanum, hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Hong Kong og Þorlákur verður við hlið hans næstu mánuðina, eftir að hafa m.a. haft það verkefni með höndum að finna nýjan þjálfara og ráða Finnann í starfið.
Þorlákur segir að þetta muni ganga upp hjá sér næstu mánuðina en hann vilji í framhaldinu geta einbeitt sér að aðalstarfinu sem yfirmaður knattspyrnumála.
„Það jákvæða við þetta er að ég hef unnið með U23 landsliðinu síðustu vikur og ég sé nokkra leikmenn þaðan koma inn í A-landsliðið núna. Ég hef hins vegar lagt áherslu á að ég vilji eingöngu sinna þessu ásamt mínu aðalstarfi út árið þar sem ég hef mikið á minni könnu,“ sagði Þorlákur við Morgunblaðið.
Sjá allt viðtalið við Þorlák í Morgunblaðinu í dag