Aron Sigurðarson skoraði í dag í öðrum leiknum í röð fyrir Start í norsku B-deildinni í knattspyrnu en lið hans sigraði Raufoss á heimavelli, 2:1.
Aron skoraði fyrsta mark leiksins á 72. mínútu og var skipt af velli tíu mínútum síðar. Kristján Flóki Finnbogason lék fyrsta klukkutímann með Start en Guðmundur Andri Tryggvason sat á varamannabekknum allan tímann. Start er með 6 stig eftir fyrstu þrjár umferðir deildarinnar.
Í norsku úrvalsdeildinni lagði Matthías Vilhjálmsson upp eitt marka Vålerenga í 4:1 sigri á Tromsø en hann lék allan leikinn. Vålerenga er með 6 stig eftir fjóra leiki og í 5. sæti deildarinnar.
Í úrvalsdeild kvenna lék Kristrún Rut Antonsdóttir sinn fyrsta leik með Avaldsnes en hún er nýkomin þangað frá Roma á Ítalíu. Kristrún lék síðasta hálftímann í 1:1 jafntefli liðsins gegn Trondheims-Ørn á útivelli.