Icardi á leið til Juventus?

Mauro Icardi hefur verið einn öflugasti framherji ítölsku A-deildarinnar, undanfarin …
Mauro Icardi hefur verið einn öflugasti framherji ítölsku A-deildarinnar, undanfarin ár. AFP

Mauro Icardo, framherji ítalska knattspyrnufélagsins Inter Mílanó, gæti verið á förum til Juventus en það er ítalski blaðamaðurinn Tancredi Palmeri sem greinir frá þessu. Núverandi samningur Icardi við Inter rennur út sumarið 2021 og hefur hann ekki viljað skrifa undir nýjan samning við félagið.

Inter Mílanó er ekki tilbúið að borga Icardi þau laun sem leikmaðurinn vill fá en hann var meðal annars sviptur fyrirliðabandinu hjá félaginu í vetur eftir að samningaviðræður hans við félagið sigldu í strand. Palmeri greinir frá því að Juventus sé tilbúið að borga honum 8,5 milljónir evra í árslaun, plús bónusa, og hefur Juventus nú þegar sett sig í samband við umboðsmann leikmannsins.

Icardi, sem er 26 ára gamall, kom til Inter Mílanó frá Sampdoria sumarið 2013 og hefur raðað inn mörkunum fyrir félagið í ítölsku A-deildinni. Alls hefur hann skorað 110 mörk í 180 leikjum fyrir Inter en hann hefur skorað 10 mörk og lagt upp önnur fjögur fyrir Inter Mílanó í 25 deildarleikjum á þessari leiktíð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert