Dramatíkin var vægast sagt svakaleg þegar Tottenham tryggði sér farseðilinn í sinn fyrsta úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld. Liðið sló þá út hollenska liðið Ajax á hreint ótrúlegan hátt eftir sigur, 3:2, þar sem sigurmarkið kom á lokasekúndu uppbótartímans. Einvígið fór samtals 3:3 en Tottenham fer áfram með fleiri mörkum skoruðum á útivelli.
Leikurinn hefði ekki getað byrjað betur fyrir Ajax því strax á sjöttu mínútu stökk fyrirliðinn Matthijs de Ligt hæst í teignum eftir hornspyrnu og kom Ajax yfir, 1:0, og 2:0 samanlagt í einvíginu. Tottenham sótti í sig veðrið þegar á leið eftir markið en varð fyrir áfalli á 36. mínútu þegar Ajax skoraði aftur.
Þar var að verki Hakim Ziyech með glæsilegu viðstöðulausu skoti í hornið eftir sprett Dusan Tadic. Staðan 2:0 í hálfleik og ljóst að Tottenham þyrfti þrjú mörk eftir hlé til þess að komast áfram.
Tottenham-mönnum var því ekki til setunnar boðið eftir hlé og byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti. Það skilaði sér heldur betur því liðið skoraði tvö mörk á innan við fimm mínútum snemma eftir hlé. Lucas Moura komst þá fyrst einn í gegn á 55. mínútu eftir sendingu Dele Alli og skoraði. Staðan 2:1 og 3:1 samanlagt fyrir Ajax.
En á 59. mínútu skoraði Moura aftur. André Onana hafði varið meistaralega í marki Ajax, en frákastið barst til Moura. Hann náði að skýla boltanum frá varnarmönnum og lauma honum svo í hornið. Staðan orðin 2:2, 3:2 samanlagt, og Tottenham þurfti eitt mark til þess að komast áfram.
Tottenham pressaði því stíft eftir hlé, en var nærri því refsað rúmum tíu mínútum fyrir leikslok þegar Ziyech átti lúmskt skot í stöngina fyrir Ajax. Inn vildi þó boltinn ekki og Tottenham lagði allt í sölurnar síðustu mínúturnar.
Á 87. mínútu komst Jan Vertonghen heldur betur nálægt því að koma Tottenham áfram. Hann átti þá skalla í slá eftir hornspyrnu, fékk boltann aftur og náði skoti en Ajax bjargaði á línu. Svakaleg spenna.
Fimm mínútum var bætt við venjulegan leiktíma. Ajax virtist ætla að hafa þetta, en bókstaflega á lokasekúndu uppbótartímans fékk Lucas Moura boltann utarlega í teignum, náði lúmsku skoti á markið og boltinn lak í hornið. Þrennan fullkomnuð og 3:2-sigur Tottenham sömuleiðis. Ótrúleg endalok á þessum leik.
Tottenham mætir Liverpool í úrslitaleiknum, en Liverpool sló Barcelona úr leik í gær. Úrslitaleikurinn fer fram í Madríd 1. júní.