Hjörtur Hermannsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, lagði sitt af mörkum til þess að tryggja liði sínu Bröndby sæti í Evrópudeildinni á næstu leiktíð. Liðið vann Randers 4:2 í úrslitaleik um Evrópusæti í dönsku úrvalsdeildinni í dag.
Hjörtur spilaði allan leikinn í vörn Bröndby, sem lenti þó 2:0 undir í leiknum. Hjörtur lagði upp markið sem markaði endurkomu Bröndby á 55. mínútu og eftir fylgdu þrjú mörk sem tryggðu Evrópusætið fyrir Bröndby.
Bröndby hafnaði í fjórða sæti dönsku úrvalsdeilarinnar. Meistarar FC Kaupmannahafnar fara í Meistaradeildina og Midtjylland og Esbjerg voru þegar búin að tryggja sér sæti í Evrópudeildinni.