Norski knattspyrnumaðurinn Erling Braut Haaland gerði sér lítið fyrir og skoraði níu mörk í 12:0-sigri Noregs á Hondúras á HM U20-landsliða í Póllandi.
Erling er sonur Alf-Inge Haaland, fyrrverandi landsliðsmanns Noregs. Þessi 18 ára leikmaður Red Bull Salzburg skoraði fyrsta markið í leiknum á 7. mínútu og það níunda á lokamínútu leiksins, en þá hafði lið Hondúras misst tvo menn af velli.
Þrátt fyrir sigurinn endaði Noregur í 3. sæti síns riðils, á eftir Úrúgvæ og Nýja-Sjálandi. Liðið gæti komist áfram í útsláttarkeppnina en það veltur á árangri annarra liða sem enda í 3. sæti síns riðils.