Hetjan í Sevilla hvarf af sjónarsviðinu

Helmuth Duckadam fagnar eftir að hafa varið fjórða víti Barcelona.
Helmuth Duckadam fagnar eftir að hafa varið fjórða víti Barcelona. Ljósmynd/Reuters

Einhver furðulegasta saga úr knattspyrnuheiminum er saga rúmenska markvarðarins Helmuths Duckadams. Hann átti stærstan þátt í sigri Steaua Búkarest í Evrópukeppni meistaraliða árið 1986 en hvarf gersamlega af sjónarsviðinu í kjölfarið aðeins 27 ára gamall og lék varla knattspyrnu framar.

Líklega hafa fáir íþróttamenn fallið jafnhratt niður af hæsta tindi ef þeir hafa þá á annað borð náð honum. Til að gera söguna enn þá merkilegri lá aldrei fyrir hvers vegna ferill Duckadams fékk svo snöggan endi. Í Rúmeníu kommúnismans fóru gríðarlega margar sögur á kreik og rötuðu þær margar hverjar í heimspressuna.

Þegar undirritaður sat á Laugardalsvellinum á dögunum og horfði á dramatíska vítaspyrnukeppni Breiðabliks og Aktobe í Evrópudeildinni rifjaðist upp frammistaða Duckadams í vítaspyrnukeppninni í úrslitaleik Evrópukeppninnar. Goðsögnin Bjarni Fel. hefur sjálfsagt fengið það í gegn á sínum tíma að sýna úrslitaleikinn beint í ríkisfjölmiðlinum. Alla vega horfði ég sem púki á leikinn með Halla frænda á Holtastígnum. Saga Duckadams er svo ótrúleg að hún á vel heima í Sögustund Moggans.

Afskipti Ceausescus

Þegar kom að úrslitaleiknum í Evrópukeppni meistaraliða árið 1986 hafði Steaua Búkarest orðið meistari fimm ár í röð í Rúmeníu eftir að hafa staðið í skugga Dinamo Búkarest áratugina á undan. Steaua setti auk þess met þegar liðið var ósigrað í 104 leikjum í röð í heimalandinu. Steaua naut velvildar einræðisherrans Nicolaes Ceausescus og raunar var sonur hans Valentin settur til starfa hjá félaginu. Metið hefur af þessum sökum ekki verið tekið mjög alvarlega og fimm ára sigurganga Steaua er mörkuð af efasemdum vegna afskipta Ceausescu-fjölskyldunnar.

Liðið sýndi hins vegar í Evrópukeppninni að þar var á ferðinni frábært knattspyrnulið og sigur þeirra í keppninni var sá fyrsti hjá liði úr austurhluta Evrópu. Á leið sinni í úrslit sló liðið meðal annars út belgíska liðið Anderlecht með Arnór Guðjohnsen innanborðs. Mótherjinn í úrslitaleiknum var spænski risinn Barcelona og fór úrslitaleikurinn að auki fram á Spáni eða í Sevilla. Á þessum árum voru reglur sem takmörkuðu fjölda útlendinga hjá knattspyrnuliðunum. Til að ná árangri í Evrópukeppnum þurftu liðin því að rækta garðinn og eiga öfluga heimamenn. Þar stóð Barcelona ekki illa að vígi því liðið var með spænska landsliðsmenn innanborðs sem komust í úrslitaleikinn á EM 1984 og fóru í átta liða úrslit á HM 1986. Barcelonaliðinu stýrði Englendingurinn Terry Venables sem síðar varð vinnuveitandi Guðna Bergssonar hjá Tottenham Hotspur.

Varði allar spyrnurnar

Ekki tókst Barcelona að skora hjá Helmuth Duckadam á 120 mínútum og var því gripið til vítaspyrnukeppni, sem var í meira lagi söguleg. Að loknum fjórum spyrnum var enn 0:0. Duckadam hafði varið frá Alexanko og Pedraza. Urruti, markvörður Barcelona, hafði varið eina og önnur hitti ekki markið. Duckadam lét þar ekki staðar numið heldur varði næstu tvær spyrnur og Steaua fagnaði óvæntum 2:0-sigri. Þess má geta að Marius Lacatus skoraði úr fyrri spyrnu Steaua en hann er einn af þekktustu knattspyrnumönnum Rúmeníu.

Helmuth Duckadam með Evrópubikarinn í Sevilla.
Helmuth Duckadam með Evrópubikarinn í Sevilla. Ljósmynd/Reuters

Ekki er hægt að skrifa miklu betra handrit fyrir markvörð en að verða Evrópumeistari og verja allar vítaspyrnur Barcelona í vítaspyrnukeppni úrslitaleiksins. Engu að síður er nafn Duckadams sjaldnast nefnt þegar sparkspekingar rifja upp bestu markverði níunda áratugarins. Frekar koma nöfn eins og Rinat Dasayev, Jean Marie Pfaff, Peter Shilton, Joel Bats, Neville Southall og Harald Toni Schumacher upp í hugann. Frammistaða Duckadams gleymist seint en kannski er engin furða að nafn hans skuli hafa gleymst. Úrslitaleikurinn var nánast hans síðasti leikur ef frá er talið þegar hann sneri aftur þremur árum síðar og lék í 2. deild í tvö ár. Mun hann þá ekki hafa verið svipur hjá sjón.

Hvað varð um Duckadam?

Rúmeninn hvarf einfaldlega af sjónarsviðinu í framhaldi af þessu mikla afreki í Sevilla þar sem úrslitaleikurinn fór fram. Á þeim tíma tókst fjölmiðlum ekki að skýra frá því hvers vegna Duckadam hætti að leika með Evrópumeisturunum þar sem ferill hans virtist vera að fara á flug. Ekki hjálpaði það svo sem til að markvörðurinn var sjálfur fámáll ef fjölmiðlar komust í tæri við hann.

Fyrir vikið spunnust ýmsar sögur um örlög Duckadams. Sumar hverjar snerust um Ceausescu-fjölskylduna og þá sérstaklega soninn Valentin, sem var háttsettur hjá félaginu. Utan Rúmeníu var til að mynda fjallað um að hrottar á vegum Valentins hefðu mölvað hendurnar á Duckadam og bundið þannig enda á feril hans. Ein af skrautlegri sögunum gekk út á að erkifjendum Barcelona í Real Madrid hefði verið svo skemmt yfir úrslitunum í Sevilla að þeir hefðu gefið Duckadam Mercedes-Benz-bifreið fyrir frammistöðuna. Slíkt ríkidæmi knattspyrnumanns hefði verið meira en Valentin Ceausescu þoldi. Hann hefði heimtað að Duckadam afhenti sér Benzinn en markvörðurinn neitað því með fyrrgreindum afleiðingum.

Sögurnar lifa ágætu lífi

Slíkar sögur lifa raunar enn ágætu lífi en fleiri sagnfræðingar og íþróttafréttamenn hallast þó að því að Duckadam hafi fengið sjaldgæfan blóðsjúkdóm. Á þá leið er einnig frásögn markvarðarins sjálfs en þó hefur hann ekki greint frá veikindum sínum í neinum smáatriðum. Hann neitaði ávallt sögum um afskipti Ceausescu-fjölskyldunnar, bæði fyrir og eftir fall kommúnismans. Einhverra hluta vegna var hann þó ávallt fremur vandræðalegur þegar hann var spurður um veikindi sín. Kannski er það ein ástæða þess að sögusagnirnar hafa haldið lífi.

Eftir því sem næst verður komist mun Duckadam hafa fundið fyrir dofa í handlegg um tveimur máuðum eftir úrslitaleikinn í Sevilla. Um tíma var útlit fyrir að skera þyrfti handlegginn af en læknum tókst að koma í veg fyrir það eftir átta tíma aðgerð. Markvörðurinn mun hafa farið í fjórar til fimm aðgerðir vegna sjúkdómsins á árunum eftir sigurinn í Evrópukeppninni.

Hanskarnir seldir fyrir mat

Leikmenn Steaua Búkarest lifðu engu kóngalífi þótt velgengnin hafi verið mikil um tíma. Steaua var lið hersins eins og ýmis önnur kunn lið í Austur-Evrópu og launagreiðslur voru ekki háar. Duckadam bjó við fátækt eftir að ferlinum lauk enda átti hann ekki digra sjóði að leita í. Saga hans er um margt sorgarsaga. Duckadam greindi til að mynda nýlega frá því að hann hefði selt hanskana sem hann notaði í úrslitaleiknum í gegnum netið. Lét hann þá fyrir nokkur þúsund evrur og segist dauðsjá eftir því en hann hafi verið örvæntingarfullur á þeim tíma. Snemma á þessari öld vann Duckadam í eins konar vegabréfa-happdrætti þar sem fjölskylda hans öðlaðist dvalarleyfi í Bandaríkjunum. Duckadam tókst ekki að aðlagast þar vestra en eiginkonan og dóttir urðu hins vegar eftir þar sem líf þeirra þar var betra en í Rúmeníu.

Duckadam er 54 ára gamall (þegar greinin var skrifuð) og starfar nú hjá sínu gamla félagi Steaua í Búkarest. Hann var gerður að forseta félagsins árið 2010 og hagur hans hefur vænkast, alla vega fjárhagslega. Heilsa hans er þó ekkert sérstaklega góð og síðast var gert að handleggnum í fyrra. Árið 2008 var hann heiðraður af forseta Rúmeníu fyrir afrek sitt árið 1986. Þótti honum vænt um þann virðingarvott og þótti mörgum knattspyrnuáhugamönnum í Rúmeníu slíkt vera tímabært. Gamla hetjan, sem var gleymd en þó ekki grafin, fékk loksins eitthvað fyrir sinn snúð í heimalandinu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. október 2013.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka